Húsnæðið við Einarsnes 36 hefur hýst ýmsan rekstur um áratuga bil. Fyrst var í húsinu KRON (Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis) sem opnaði í kringum 1940 og á síðari árum Verslunin Skerjaver sem margir muna eftir. Árið 2007 ákváðum við að loka hverfisbúðinni og breyta húsnæðinu í kryddverksmiðju – sjá www.bestalambid.is – og rákum við hana í tæp 8 ár.

Á því herrans ári 2015 fannst okkur tími kominn til að söðla um og prófa eitthvað nýtt og ótal margar hugmyndir komu fljótlega upp á borðið. Hugmyndin um kaffihús, veitingastað og verkstæðisaðstöðu fyrir hjólafólk var raunar sú fyrsta sem kom upp og hafði á endanum vinninginn þegar búið var að flengjast um víðan völl í heilastormi.

Draumar eru til þess að eltast við og það erum við að gera með Bike Cave.